Fara í efni
06.12.2025 Fréttir

Ný skýrsla Vörðu dregur upp skýra mynd af því hvernig heimilisstörfum, ábyrgð og hugrænni vinnu er enn ójafnt skipt milli kynja.

Deildu

Varða - rannsóknastofnun vinnumarkaðarins stóð fyrir könnun meðal félagsfólks ASÍ og BSRB varðandi skiptingu heimilisstarfa meðal sambúðarfólks.


Niðurstöðurnar sýna að konur bera meginábyrgð á daglegum verkefnum á borð við þrif, þvotta og skipulag heimilisins, auk þess að sinna að stærstum hluta svokallaðri þriðju vakt – þeirri ósýnilegu vinnu sem felst í utanumhaldi, skipulagi og því að muna eftir öllu sem þarf að gera. Þótt verkefni á borð við matseld og fjármál heimilisins séu jafnar skipt en áður, hallar þar enn á konur þegar kemur að matargerð, á meðan karlar bera oftar ábyrgð á fjármálum.

Skýrslan sýnir jafnframt að konur og karlar meta eigið framlag til heimilisstarfa með ólíkum hætti. Þar sem karlar telja verkaskiptinguna jafna, upplifa konur oft að þær beri mun meiri ábyrgð. Þessi skekkja í upplifun og raunverulegri verkaskiptingu varpar ljósi á djúpstæðan kynbundinn vanda sem hefur áhrif langt út fyrir veggi heimilisins – á atvinnuþátttöku, heilsu, lífsgæði og jafnrétti.

Rannsóknin, sem byggir á svörum tæplega 25.000 launamanna, er sú umfangsmesta sem Varða hefur framkvæmt hingað til. Niðurstöðurnar undirstrika að þrátt fyrir áratuga jafnréttisbaráttu hvílir ósýnilegt vinnuálag enn í mun ríkari mæli á konum og að raunveruleg jafnstaða á vinnumarkaði og í samfélaginu verður ekki náð nema þessi vinna sé viðurkennd, sýnileg og jöfnuð.

Sjá má frétt BSRB í heild sinni hér fyrir neðan ásamt hlekk á niðurstöður könnunarinnar í skýrslu Vörðu.