Fara í efni

Mörk

Öll höfum við okkar mörk í samskiptum, þó að við séum ekki alltaf meðvituð um þau. Oft finnum við fyrst fyrir mörkunum þegar þau eru ekki virt. Mörk hjálpa okkur að vernda okkur sjálf, finna jafnvægi og skapa öryggi í samskiptum við aðra.

Af hverju skipta mörk máli?

  • Þau skýra hvað er á okkar ábyrgð og hvað er á ábyrgð annarra.
  • Þau verja okkur gegn óhóflegu álagi, ósanngjarnri framkomu eða óviðeigandi hegðun.
  • Þau gefa okkur frelsi til að vera við sjálf án þess að fórna okkar eigin líðan.
  • Þau stuðla að heilbrigðum samskiptum og draga úr streitu.

Þegar mörk eru virt upplifum við öryggi og virðingu, en þegar þau eru brotin skapast vanlíðan og ójafnvægi.

Að setja og halda mörkum krefst æfingar og stundum hugrekkis. En með því að standa vörð um eigin mörk stuðlum við að betra vinnuumhverfi fyrir okkur sjálf og aðra. Þegar menning á vinnustaðnum er heilbrigð eru mörk rædd af virðingu, og þannig skapast sameiginlegur skilningur á því hvað felst í góðum samskiptum.

Tegundir marka

  • Líkamleg mörk: Persónulegt rými, snerting, eigur og vinnurými.
  • Andleg og tilfinningaleg mörk: Skoðanir, gildi og tilfinningar. Að deila án þess að taka gagnrýni persónulega og að geta sagt nei.
  • Fagleg mörk: Skipulag vinnunnar, hlutverk og ábyrgð. Skýr mörk hjálpa starfsfólki að vita hvaða verkefni það ber ábyrgð á og hver ákveður forgang.
  • Persónuleg mörk: Hvað við teljum ásættanlegt í samskiptum, eins og orðalag, tón og virðingu fyrir einkalífi. Þau hjálpa okkur líka að halda jafnvægi milli vinnu og einkalífs.

Dæmi um aðstæður þar sem mikilvægt er að setja mörk

  • Þegar talað er niður til okkar eða notuð særandi orð.
  • Þegar ætlast er til að við segjum alltaf já, jafnvel þegar það er óraunhæft.
  • Þegar gengið er of nærri einkalífi, persónulegu rými eða tíma utan vinnutíma.
  • Þegar reiði eða niðurlæging er notuð í stað opinnar umræðu.

Ávinningurinn af skýrum mörkum

  • Aukið öryggi og vellíðan í vinnunni.
  • Virðing frá samstarfsfólki og stjórnendum.
  • Betra jafnvægi milli vinnu og einkalífs.
  • Skýrari samskipti og meiri starfsánægja.