Fara í efni

Réttindi

Félagsfólk á rétt á öruggu vinnuumhverfi, sanngjörnum launum samkvæmt kjarasamningum, virðingu og réttlátri meðferð á vinnustað, auk skýrra upplýsinga um starfslýsingu, vinnutíma og starfsumhverfi. 

Á móti ber starfsfólki að sinna starfi sínu af heiðarleika og fagmennsku, virða vinnutíma og öryggisreglur, gæta trúnaðar um málefni vinnustaðarins og upplýsa vinnuveitanda tímanlega um breytingar sem hafa áhrif á starf. 

Réttindi og skyldur mynda sameiginlegan grunn að góðu og traustu samstarfi sem stuðlar að heilbrigðu vinnuumhverfi og betri starfsánægju.

  • Við upphaf starfs eigum við rétt á ráðningarsamningi, öruggu vinnuumhverfi og launum samkvæmt kjarasamningi, á sama tíma og við berum skyldu til að sinna starfi og fylgja reglum.
  • Vinnurétturinn tryggir lágmarkslaun, vinnutímaákvæði, hlé, félagafrelsi og vernd gegn mismunun, á meðan við erum skuldbundin til að vinna af heilindum og virða vinnulöggjöf
  • Á starfsævinni bætast við réttindi um endurmenntun, starfsöryggi og vernd gegn óréttmætum uppsögnum
  • Við lok starfs tryggja lög uppsagnarfrest, rétt uppgjör og lífeyrisréttindi
  • Orlofsréttur ávinnst alla starfsævina með lágmarksorlofi og orlofsálagi
  • Fæðingar- og foreldraorlof verndar foreldra með réttindum til að annast barn sitt og snúa aftur til starfa. 

Hér má lesa nánar um hin ýmsu réttindi sem félagsfólk nýtur samkvæmt lögum og kjarasamningum, svo sem orlof, veikindarétt, uppsagnarfrest, fæðingarorlof og önnur starfskjör. Markmið okkar er að tryggja að félagsfólk hafi skýra og aðgengilega yfirsýn yfir réttindi sín á vinnumarkaði.


Upphaf starfs

Við upphaf starfs stofnast ráðningarsamband milli starfsmanns og vinnuveitanda. Almenna reglan er sú að starfsfólk er ráðið ótímabundið, nema annað sé sérstaklega tekið fram í ráðningarsamningi eða leiði af lögum. Gilda að mestu leyti sambærilegar reglur á opinberum vinnumarkaði og almennum vinnumarkaði, þó með ákveðnum undantekningum eftir því hvort um er að ræða störf hjá ríki, sveitarfélögum eða einkaaðilum.

Reynslutími er algengur við upphaf starfs og er yfirleitt þrír mánuðir, nema annað sé samið. Á reynslutíma er uppsagnarfrestur almennt styttri en eftir að honum lýkur. Heimilt er að semja um annan reynslutíma, þó er almennt miðað við að hann fari ekki yfir sex mánuði.

Tímabundnar ráðningar eru heimilar en lúta skýrum takmörkunum. Slíkir samningar mega að jafnaði ekki vara samfellt lengur en tvö ár og starfsmenn í tímabundnum störfum skulu njóta sambærilegra starfskjara og þeir sem eru ráðnir ótímabundið, nema málefnalegar ástæður réttlæti annað. Tímabundnum ráðningarsamningum verður ekki sagt upp á samningstíma nema sérstaklega hafi verið samið um það.

Hlutastörf skulu byggjast á jafnræði og mega ekki leiða til lakari kjara eða meðferðar en fullt starf, nema það sé réttlætt með hlutlægum ástæðum. Atvinnurekendum ber að veita starfsmönnum í hlutastörfum upplýsingar um laus störf og greiða fyrir aðgangi að starfsmenntun og starfsþjálfun.

Á opinberum vinnumarkaði gilda að auki sérstakar reglur, m.a. um auglýsingu starfa, skipun eða setningu í embætti og réttindi starfsmanna samkvæmt lögum og kjarasamningum.

Markmið reglna um upphaf starfs og ráðningarsambönd er að tryggja skýrleika, jafnræði og réttindi starfsfólks frá fyrsta degi ráðningar.

Starfsævin