Kjaramál
Við semjum fyrir hönd okkar félagsmanna við atvinnurekendur eða samtök atvinnurekenda. Í kjarasamningi eru ákvæði um laun, vinnutíma, yfirvinnu, orlof, veikindarétt, uppsagnarrétt ofl.

Að þekkja kjaramál sín er ein öflugasta leiðin til að styrkja eigin stöðu á vinnumarkaði.
Það veitir öryggi og eykur lífsgæði að þekkja réttindi sín, vita hvaða skyldur eigi að gegna á vinnumarkaði, að kunna að lesa kjarasamninga og fólk verður betur í stakk búið að taka upplýstar ákvarðanir.
Kjaramál eru sá þáttur sem getur haft hvað mest mótandi áhrif á líf okkar og lífsgæði og mikilvægt er að kynna sér bæði hvaða réttindi og styrkir eru í boði og hverju þarf að huga að til framtíðar. Mikilvægt er að vita rétt sinn til dæmis þegar kemur að fæðingarorlofi eða ef veikindi steðja að. Skilningur á lífeyrissjóðskerfinu er grunnur að fjárhagslegu öryggi þegar taka lífeyris hefst eftir starfsævina. Að þekkja inn á kjaramál getur því skilað sér í hærri afkomu, auknum lífsgæðum og fjárhagslega öruggum eldri æviárum.
Starfsmannafélag Kópavogs kappkostar að vera til staðar, styðja sitt félagsfólk og upplýsa það um rétt sinn og skyldur, miðla fræðslu og símenntunartækifærum og vera í öflugu og nánu samstarfi.
Kjarasamningar eru eitt mikilvægasta verkfæri íslensks vinnumarkaðar.
Þeir tryggja að grunnréttindi og launakjör launafólks séu skýr, sanngjörn og samræmd – óháð atvinnugrein eða einstaklingsbundinni samningahæfni. Án kjarasamninga væri hver starfsmaður einn á að semja um kjör sín móti atvinnurekanda og mikil hætta væri á ójöfnuði, óvissu og ótryggum starfskjörum.
Í kjarasamningum er samið um allt það sem skiptir máli í daglegu starfi: laun, álagsgreiðslur, orlof, veikindarétt, uppsagnarfresti, vaktakerfi, frídaga, fæðingarorlof, rétt til náms, öryggi á vinnustað og margt fleira.
Fyrir einstaklinginn þýðir þetta að réttindi eru tryggð fram í tímann, að starfskjör eru ekki háð geðþóttaákvörðunum og að fólk getur unnið og lifað með meiri öryggi.
Hér fyrir neðan í Kjarasamningar má finna núverandi heildarkjarasamning og launatöflur ásamt eldri kjarasamningum og eldri launatöflum.
Hægt er að lesa sér til um réttindi, lífeyrismál, fá upplýsingar fyrir launagreiðendur og helstu spurningar undir spurt og svarað.