Kosning trúnaðarmanna
Trúnaðarmenn eru kjörnir til tveggja ára í senn.
Núverandi trúnaðarmannaráðstímabil er:
31. maí 2025-31. maí 2027.

Kosning trúnaðarmanna SfK
Trúnaðarmenn SfK eru kjörnir annað hvert ár, í maí á oddatöluárum. Trúnaðarmaður er fulltrúi starfsfólks gagnvart atvinnurekanda og því mikilvægt að kosning fari fram í góðu samráði við SfK. Félagið staðfestir kjör og veitir formlegt umboð. Yfirleitt er það trúnaðarmaður sem stendur að kosningunni. SfK er þó heimilt að skipa trúnaðarmenn þar sem ekki er hægt að koma við kosningu.
Á hverjum vinnustað þar sem að minnsta kosti 5 félagar í SfK starfa er heimilt að kjósa einn trúnaðarmann úr sínum hópi. Á vinnustað þar sem 50 félagar eða fleiri starfa er heimilt að kjósa tvo trúnaðarmenn. Nú eru um 45 trúnaðarmenn starfandi hjá SfK. Allir félagsmenn geta boðið sig fram og felur hlutverkið m.a. í sér að standa vörð um réttindi samstarfsfólks, miðla upplýsingum, fylgjast með að kjarasamningar séu virtir og veita aðstoð þegar upp koma ágreiningsmál.
Trúnaðarmaður telst ekki fá réttarstöðu og lögbundna vernd trúnaðarmanns nema kosning hans hafi verið tilkynnt stéttarfélagi og vinnuveitanda skriflega og sannanlega.
Það er því mjög mikilvægt að kjörnir trúnaðarmenn gæti þess að tilkynningaskyldu sé fylgt eftir, með meðfylgjandi eyðublöðum.
Trúnaðarmenn fá tækifæri til að öðlast dýrmæta þekkingu á mannauðs- og vinnumarkaðsmálum og öðlast oft breiðari sýn á starfsemi vinnustaða og stéttarfélaga. SfK býður einnig upp á námskeið og fræðslu fyrir trúnaðarmenn sem nýtist bæði í starfi og daglegu lífi.
Sem fyrr segir er núverandi kjörtímabil frá 31. maí 2025 til 31. maí 2027.
Næsta kjörtímabil tekur svo við frá 31. maí 2027 til 31. maí 2029, en undirbúningur fyrir kosningu hefst í lok mars 2027.
Hvernig kosning fer fram
- Í lok maí á kosningarári sendir SfK kjörgögn með tölvupósti til allra sem gegna trúnaðarmannastarfi. Ef einhver þarf gögnin sérstaklega er hægt að óska eftir þeim í gegn um tölvupóst sfk@stkop.is
- Trúnaðarmaður sem er að ljúka sínu kjörtímabili sér til þess að auglýsing um kosningu og kynningu á starfi trúnaðarmans sé hvort tveggja sýnilegt á vinnustaðnum. Gott er að hengja upp auglýsingu í sameiginlegum rýmum og gjarnan senda hana í tölvupósti til félagsfólks SfK á sínum vinnustað. Auglýsingin þarf að hanga uppi í 10 daga.
- Allir félagsmenn geta boðið sig fram. Ef fleiri en einn er í framboði fer fram kosning á vinnustaðnum. Sé einungis einn í framboði telst hann sjálfkjörinn í lok þessa 10 daga.
- Eftir að niðurstaða kosningar liggur fyrir þarf að senda formlega tilkynningu til skrifstofu SfK. Það tryggir að kjörið sé skráð rétt og trúnaðarmaður fái formlegt umboð.
Mikilvægt er að kosning fari fram á tveggja ára fresti, eins og lögin áskilja, jafnvel þó einungis einn sé í framboði á vinnustað, sbr. Hrd. 331/2016 þar sem trúnaðarmanni var sagt upp störfum á grundvelli hagræðingar en hann taldi sig eiga að njóta verndar vegna stöðu sinnar sem trúnaðarmaður. Viðkomandi hafði verið kosinn trúnaðarmaður á árinu 2012 en tveimur árum síðar var ekkert kjör haldið. Þegar uppsögn kom til var hann þ.a.l. ekki kjörinn trúnaðarmaður og hafði því ekki formlega stöðu sem slíkur, jafnvel þó afstaða yfirmanna hefði verið sú að viðkomandi væri trúnaðarmaður á vinnustaðnum. Uppsögnin var því talin lögleg.