Fara í efni

Lífeyrismál

Lífeyrismál snerta alla sem eru á vinnumarkaði. Með því að greiða í lífeyrissjóði byggjum við upp fjárhagslegt öryggi til framtíðar, bæði fyrir eftirlaunaárin og ef eitthvað óvænt kemur upp á, svo sem starfsgetumissir eða örorka. Íslenska lífeyriskerfið byggir á þremur meginstoðum: almennum lífeyri frá Tryggingastofnun, skyldusparnaði í lífeyrissjóði og viðbótarlífeyrissparnaði sem launþegar geta nýtt til að bæta framtíðarstöðu sína.

Það er mikilvægt að þekkja réttindi sín, hvenær þau verða virk og hvernig þau nýtast. Góð fræðsla og aðgengi að upplýsingum hjálpar fólki að taka upplýstar ákvarðanir um sparnað, ráðstöfun lífeyris og áætlun fyrir framtíðina.

Hvernig færðu yfirsýn yfir réttindin þín?

  • Farðu inn á vef þess lífeyrissjóðs sem þú ert að greiða í núna, eða hefur greitt í áður.
  • Skráðu þig inn á “mínar síður” með rafrænum skilríkjum.
  • Þar sérðu réttindin sem hafa safnast hjá viðkomandi sjóði.
  • Þú getur einnig óskað eftir upplýsingum frá öðrum sjóðum og fáð þá yfirsýn yfir öll réttindi þín á einum stað.

Ertu ekki viss um í hvaða sjóð þú hefur greitt?

Ef þú veist það ekki, geturðu haft samband við Greiðslustofu lífeyrissjóða og fengið upplýsingar um hvaða sjóð þú átt að leita til.

Fyrirspurnir má senda á: lifeyrir@greidslustofa.is

Úr kjarasamning Sambands íslenskra sveitarfélaga og Starfsmannafélags Kópavogs

13.7.1 Aðild að lífeyrissjóði

Starfsmenn sem heyra undir samning þennan skulu eiga aðild að Brú lífeyrissjóði sveitarfélaga eftir því sem lög og samþykktir sjóðsins segja til um. Við upphaf ráðningar eiga starfsmenn val um það hvort iðgjald þeirra fari til A eða V-deildar sjóðsins.

13.7.2 Lífeyrissjóðsiðgjöld

Iðgjald starfsmanns sem aðild á að A-deild Brúar lífeyrissjóðs skal vera 4% af heildarlaunum starfsmanns og mótframlag vinnuveitanda skal vera 11,5%.
Eigi starfsmaður rétt til jafnrar réttindaávinnslu samkvæmt samþykktum A-deildar Brúar lífeyrissjóðs og sé vinnuveitandi annar en sveitarfélag, stofnun sveitarfélags, fyrirtæki eða önnur rekstrareining sem að hálfu eða meirihluta er í eigu sveitarfélaga og rekin sem fjárhagslega sjálfstæð eining sbr. 60. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 skal vinnuveitandi til viðbótar greiða sérstakt iðgjald vegna lífeyrisauka. Um prósentu sérstaks iðgjalds hverju sinni fer samkvæmt samþykktum Brúar lífeyrissjóðs.
Iðgjald starfsmanns sem aðild á að V-deild Brúar lífeyrissjóðs skal vera 4% af heildarlaunum starfsmanns og mótframlag vinnuveitanda skal vera 11,5%.
Iðgjald starfsmanns sem aðild á að B-deild Brúar lífeyrissjóðs og mótframlag fer samkvæmt samþykktum Brúar lífeyrissjóðs eftir því sem við á.


13.7.3 Viðbótarframlög til lífeyrissparnaðar

Nýti starfsmaður lögbundinn rétt sinn til lífeyrissparnaðar, greiðir vinnuveitandi mótframlag til jafns á móti séreignarlífeyrissparnaði starfsmanns, allt að 2%.