Í grein BSRB Kvennaár og hvað svo? taka Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hagfræðingur BSRB og Steinunn Bragadóttir hagfræðingur hjá ASÍ saman tölfræðilegar greiningar og setja í samhengi við kröfur og baráttumál Kvennaárs 2025. Höfundar greinarinnar sýna hvernig kynbundið misrétti birtist ekki sem einstök frávik heldur sem kerfisbundin niðurstaða samspils vinnumarkaðar, fjölskylduábyrgðar, velferðarkerfa og öryggis.
Í umfjölluninni er sérstaklega bent á áframhaldandi kynbundinn launamun og vanmat á hefðbundnum kvennastörfum, sem hefur víðtækar afleiðingar fyrir tekjur, starfsævina og fjárhagslegt sjálfstæði kvenna. Þá er rýnt í ójafna skiptingu fjölskylduábyrgðar og hvernig hún dregur úr atvinnuþátttöku, starfshlutfalli og tekjum kvenna, ekki síst vegna umönnunarbilsins milli fæðingarorlofs og leikskóla. Einnig er fjallað um kynbundið ofbeldi sem alvarlegt jafnréttis- og öryggismál sem kallar á markvissar og margþættar aðgerðir.
Greinin horfir jafnframt fram á veginn og dregur fram þau verkefni sem brýnt er að ráðast í á næstu árum, þar á meðal lögfestingu réttar barna til leikskóladvalar að loknu fæðingarorlofi, endurskoðun virðismats starfa og styrkingu aðgerða gegn kynbundnu ofbeldi. Áhersla er lögð á að án skýrs pólitísks vilja og samræmdra aðgerða verði ekki unnt að ná þeim markmiðum sem sett voru fram á Kvennaári 2025.
Sjá grein þeirra á heimasíðu BSRB:
