Fara í efni
07.01.2026 Fréttir

Breytingar á úthlutunarreglum - Klettur styrktarsjóður

Deildu

Breytingar á úthlutunarreglum styrktarsjóðsins Kletts tóku gildi frá og með 1. janúar 2026.

Nokkar breytingar á reglum sjúkrasjóðs hafa verið samþykktar af stjórn sjóðsins. Helstu breytingar snúa að hámarksgreiðslum sjúkradagpeninga, takmörkunum á greiðsludögum við endurhæfingu, fjölbreyttari meðferðir eru nú styrkjarhæfar og einstakir styrkir hafa verið endurskoðaðir. 

Hámark á sjúkradagpeninga

Sett verður hámark á sjúkradagpeningagreiðslur sem nemur 850.000 kr. á hvern mánuð. Hámarkið miðast við greiðslur fyrir hvern einstakan mánuð í veikindum og hefur ekki áhrif á greiðslur sem tilheyra öðrum mánuðum, jafnvel þótt þær séu greiddar síðar.

Takmörkun greiðsludaga fyrir sjúkradagpeninga

Sjóðsfélagar sem eru í eða stefna á endurhæfingu eiga framvegis að hámarki 30 daga rétt til sjúkradagpeninga úr sjóðnum.
Þetta á við um þá sem sækja eða hyggjast sækja um sjúkra- og endurhæfingargreiðslur hjá TR.
Frá 1. september 2025 tóku slíkar greiðslur við af endurhæfingarlífeyri hjá TR og má nú fá greiðslur á meðan einstaklingur er í eða bíður meðferðar, getur ekki nýtt sér meðferð vegna veikinda eða er í atvinnuleit eftir endurhæfingu.

Fjölbreyttari meðferðarúrræði

Sjóðsfélagar geta framvegis sótt um styrk til eftirmeðferðar vegna áfengis- eða vímuefnameðferðar hjá fleiri viðurkenndum meðferðarstofnunum innanlands, en ekki eingöngu hjá Heilsustofnun NLFÍ. Hámarksfjöldi styrkhæfra daga, 28 dagar, helst óbreyttur.
Aukning hefur orðið í umsóknum um stuðning til áframhaldandi meðferðar eftir dvöl á Vogi, enda er eftirmeðferð oft kostnaðarsöm og mikilvægur hluti bataferlis.

Lækkun tannlæknastyrks

Hámarksupphæð tannlæknastyrks lækkar úr 150.000 kr. í 110.000 kr. á hverju réttindatímabili.

Hækkun iðgjaldaviðmiðs fyrir fullan fæðingarstyrk

Viðmið greiddra iðgjalda síðustu 12 mánuði fyrir fæðingu barns hækkar úr 33.300 kr. í 45.000 kr. til að öðlast rétt til fulls fæðingarstyrks að fjárhæð 240.000 kr.
Hækkunin tryggir jafnframt að sjóðsfélagar í fullu starfi á lágmarkslaunum ná viðmiðinu fyrir fullan styrk. Sjóðsfélagar sem ekki ná viðmiðinu fá hlutfallslegan styrk miðað við greidd iðgjöld.
Breytingin tekur gildi vegna barna sem fæðast 1. janúar 2026 eða síðar.