Við héldum frábæran trúnaðarmannafund á miðvikudaginn síðasta. Þar hlustuðum við á erindi um málefni sem var greinilega þörf á að ræða og fræðast um skv. þarfagreiningu meðal trúnaðarmanna í upphafi árs.
Fyrst kom Soffía Ámundadóttir og fjallaði um ofbeldi meðal barna og ungmenna. Soffía hefur verið áberandi í fréttum upp á síðkastið þar sem hún ræðir málefnið sem gjarnan er ákveðið tabú að ræða. Soffía er margvíslega menntuð og hefur komið víða við. Hún er bæði leik- og grunnskólakennari með meistaragráðu í stjórnun menntastofnana en hún hefur einnig þjálfað fótboltalið í áratugi og kennir við Menntavísindasvið HÍ, Endurmenntun og Kvan og vinnur í neyðarvistun Stuðla sem og Brúarskóla. Hún hefur gríðarlega innsýn inn í málefnið og vinnur hörðum höndum að því að fræða og stuðla að úrbótum.
Hún sagði ofbeldi meðal barna og ungmenna vera alþjóðlegt vandamál og rannsóknir sýna mikla aukningu á ofbeldi og það er orðið grófara. Það vantar miðstýrða verkferla, skráningum á atvikum er ábótavant, langir biðlistar séu í úrræði og heilt yfir er þetta mikil áskorun fyrir skólasamfélagið. Soffía telur nemendur skilgreina ofbeldi of þröngt og að það þurfi að skilgreina betur með þeim sem og starfsmönnum skólans hvar við drögum línuna og hvað ofbeldi er í raun og veru því talsvert hefur verið "normaliserað".
Margt er hægt að gera til úrbóta en það krefst átaks og samræmdra aðgerða á landinu öllu, til dæmis með aukinni fræðslu til stjórnenda og kennara, umbætur á miðstýrðum verkferlum og skráningum, íhlutun þarf að gerast fyrr og skólayfirvöld þurfa að tryggja öryggi og vellíðan starfsfólks. Einnig er hægt að gera breytingar á umhverfi og dagskrá barna og ungmenna. Soffía nefnir til dæmis hegðunarver, breytingar á skipulagi kennslustofu, sjónrænt skipulag hentar mörgum betur, rólegir morgnar og meiri hreyfing eru leiðir til að hafa jákvæð áhrif á hegðun, fá nemendur með í skipulag og nota hvatningarbækur og umbunarkerfi.
Síðan fengum við Kristínu Hebu Gísladóttur, framkvæmdastjóra Vörðu - rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins. Kristín Heba er með BA gráðu í sálfræði frá HA og meistarapróf í auðlindafræði þaðan einnig. Hún hefur starfað við kennslu og rannsóknir í mörg ár og í erindinu kynnti hún rannsókn Vörðu á stöðu foreldra á vinnumarkaði.
Rannsóknin beinir sjónum að því hvernig foreldrar barna samræma fjölskyldu- og atvinnulíf, með sérstakri áherslu á umönnunarbilið sem myndast þegar fæðingarorlofi lýkur og þar til börn komast í leikskóla. Rannsóknin sýnir að konur bera oftast meiri ábyrgð á umönnun barna og heimilisstörfum sem getur haft mikil áhrif á starfsferil þeirra og launajafnrétti. Almennt eru konur lengur frá vinnumarkaði en menn í fæðingarorlofi, tekjur þeirra lækka vegna hlutavinnu og eftir ævistarf þeirra fá þær því lægri lífeyri sem því nemur. Einnig kom fram að um fjórðungur kvenna um sextugt eru ekki á vinnumarkaði vegna kulnunar og/eða örorku.
Kristín Heba lagði áherslu á mikilvægi þess að brúa þetta bil með markvissum aðgerðum, þar á meðal með því að fjölga leikskólaplássum og bæta stuðning við foreldra. Hún benti á að þetta væri ekki aðeins jafnréttismál heldur einnig grundvallaratriði í að tryggja velferð barna og kvenna sem og jafnvægi í lífi fjölskyldna.
Starfsmannafélag Kópavogs þakkar þessum frábæru fyrirlesurum og við höldum áfram að sérsníða öfluga fræðslu að þörfum trúnaðarmanna, sem skilar sér til okkar félagsfólks.
Áhugaverðar heimasíður:
https://menntaflettan.is/
https://menntastefna.is/
https://www.rannvinn.is/




