Social isolation - loneliness
Izolacja społeczna - Porozmawiajmy
Félags- og húsnæðismálaráðuneytið hefur hleypt af stokkunum átaksverkefni um félagslega einangrun undir yfirskriftinni Tölum saman. Markmið verkefnisins er að vekja athygli á alvarleika félagslegrar einangrunar og hvetja almenning til að taka þátt í lausninni – með því að opna á samtal, sýna umhyggju og vera til staðar.
Félagsleg einangrun hefur aukist verulega um allan heim á undanförnum árum, ekki aðeins meðal eldri borgara heldur í öllum aldurshópum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur jafnvel skilgreint félagslega einangrun sem lýðheilsuvanda á pari við aðrar ógnir við mannlega heilsu líkt og ofdrykkju og reykingar – svo alvarleg getur hún verið.
Einn af hverjum þrem fullorðnum er félagslega einangraður.
Afleiðingarnar geta verið alvarlegar – félagsleg einangrun eykur líkur á þunglyndi, kvíða, hjarta- og æðasjúkdómum, heilabilun og jafnvel ótímabærum dauða.
Við getum öll lagt okkar af mörkum
Það getur verið erfitt að viðurkenna eigin einmanaleika – og oft enn erfiðara að ræða hann. Þess vegna skiptir máli að við séum vakandi fyrir merkjum um einangrun í okkar nærumhverfi. Hefur þú áhyggjur af vini, ættingja eða nágranna sem virðist fjarlægur, einmana eða ekki eiga í miklum samskiptum við aðra?
Það getur líka verið mikilvægt að horfa inn á við. Ef þú upplifir skerta félagslega þátttöku – eftir flutninga, missi, starfslok eða veikindi – getur verið gagnlegt að skoða hvaða skref hægt er að taka til að styrkja tengsl og tengingu við samfélagið á ný.
Skref í átt að tengingu
- Skipuleggðu reglulegan félagslegan viðburð, eins og að bjóða í kaffi.
- Skráðu viðburði í dagatalið – fólk hittist sjaldan af sjálfu sér.
- Leitaðu eftir tækifærum til þátttöku í samfélagslífi – gönguhópum, sjálfboðastarfi, námskeiðum o.fl.
- Hugleiddu hvað hefur áhrif á þína sjálfsmynd og hvort þú sért að forðast samskipti vegna feimni, félagskvíða eða fyrri reynslu.
Að hjálpa öðrum – og finna leið til að nálgast
Stundum getur það verið gagnlegt að finna ástæðu til að banka upp á hjá fólki. Leita ráða með eitthvað, fá lánað, spjalla um umhverfið eða nágranna. Er hreinsunardagur framundan í húsinu? Er verkefni í gangi sem væri kjörið að ræða saman um? Má fá lánað verkfæri eða búsáhöld?
Félagsleg einangrun gerist ekki á einni nóttu. Og það tekur tíma að vinna gegn henni. En allt byrjar með samtali.
Okkar hlutverk sem hlustendur
Það eina sem þú þarft að gera er að hlusta með opnum huga. Vandamál annarra eru oft frábrugðin okkar eigin og þurfum við ekki að hafa svörin – bara viðveruna.
Tölum saman – því enginn ætti að þurfa að takast einn á við lífið.
Rauði krossinn veitir ráðgjöf í síma 1717 og netspjalli allan sólarhringinn.
Á vef Heilsuveru má einnig finna gagnlegar leiðir til að draga úr einsemd og efla tengsl.Sjá nánari upplýsingar um átaksverkefnið Tölum saman á síðu island.is og þar má finna bæklinga á íslensku, ensku og pólsku
https://island.is/felagsleg-einangrun
