Fara í efni
24.09.2025 Fréttir

Stóri trúnaðarmannadagurinn

Deildu

Í gær var haldinn vel heppnaður trúnaðarmannadagur á Hótel Kríunesi og mætingin var vægast sagt frábær! Um fimmtíu manns tóku þátt; trúnaðarmenn, starfsfólk SfK, stjórn og orlofsnefnd. Með fræðsludeginum var markað upphaf á nýju kjörtímabili trúnaðarmanna en í vor fór fram kosning á öllum vinnustöðum þar sem kosið var í starfið frá 2025-2027.

SfK bauð nýja trúnaðarmenn velkomna í hóp frábærra trúnaðarmanna sem margir hverjir hafa verið slíkir í áraraðir en mikill metnaður hefur verið lagður síðustu ár í að efla starf þeirra.

Dagurinn hófst á veglegu morgunverðarhlaðborði og síðan tók við þriggja stunda vinnustofa sem Helena Jónsdóttir framkvæmdarstjóri og stofnandi Mental ráðgjöf sá um. Á vinnustofunni var farið yfir áskoranir tengdar geðheilsu og erfiðum samskiptum á vinnustað. Valdefling trúnaðarmanna á eigin getu og hagnýt verkefni til að styðja við trúnaðarmenn í sínu starfi. Farið var yfir hlutverk trúnaðarmanna, skyldur og ábyrgð bæði trúnaðarmanna í starfi en einnig borgaralegar skyldur allra. Farið var yfir EKKO (Einelti, kynbundin áreitni, kynferðislegt ofbeldi og ofbeldi), ólíkar birtingarmyndir við slíku ofbeldi og mikilvægi þess að stíga inn í og standa ekki hjá slíkri hegðun. Við berum öll ábyrgð á að stíga inn í og stöðva ofbeldi, verði starfsmaður uppvís að alvarlegu ofbeldi ber okkur skylda að tilkynna slíkt.

Eftir tvírétta hádegisverð hófst fræðsla á vegum Kristínar Bertu Guðnadóttur sem er félagsfræðingur, fjölskylduráðgjafi, jógakennari og kennir sjálfsrækt með listsköpun. Kristín Berta starfar nú sjálfstætt sem meðferðaraðili á stofunni sinni Sálarlist og býður einnig upp á ýmis námskeið. Á fyrirlestrinum fór Kristín Berta yfir grunnþarfir okkar, hvernig við getum stýrt streitu í eigin lífi og áhrif tilfinninga á líkamlega heilsu. Hún kenndi ýmis bjargráð og fór inn á mikilvægi þess að taka frá tíma fyrir andrými og þeim áhugamálum sem næra okkur.

Í hópnum voru kraftmiklar umræður, virk hlustun og almenn ánægja með daginn enda er fræðsludagskráin sniðin að þarfagreiningu sem gerð var í upphafi árs meðal trúnaðarmanna. Nýjar hugmyndir komu fram á sjónarsviðið um hvernig við getum bætt um betur og haldið enn betur utan um hóp trúnaðarmanna og þær eru strax komnar í farveg.

Næst verður fræðslufundur verður haldinn í lok árs, dagsetning fyrir þann fund verður send út á næstunni.

Takk fyrir okkur!

Starfsfólk SfK