Á aðalfundi Vinnuréttarfélags Íslands 19. nóvember sl. var rætt um hvort afnema eigi áminningarskyldu úr lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins en stjórnvöld hafa uppi áform um slíka breytingu. Hrannar Már Gunnarsson, lögfræðingur BSRB, lagði áherslu á að frekar þyrfti að efla fræðslu og stuðning við stjórnendur en að fella áminningarskyldu úr lögum
Á fundinum var Lísbet Sigurðardóttir lögfræðingur Viðskiptaráðs einnig með erindi og sköpuðust fjörlegar umræður í salnum. Viðskiptaráð benti á dæmi þess að ríkið hefði verið dæmt skaðabótaskylt vegna uppsagna. Stjórnendur ríkisins hafa talið áminningaferlið þungt í vöfum og að erfitt sé að fylgja flóknum reglum þess. Hrannar lagði áherslu á sögulegar ástæður áminningarskyldu hér á landi og vísar þar til tveggja nýlegra dóma Landsréttar sem sýni að stjórnendur hafi nægt svigrúm til að bregðast við starfsmannamálum ef reglurnar eru nýttar rétt. Margir stjórnendur virðast stytta sér leið þegar slíkum áminningum er beitt og með því skapast skaðabótaábyrgð sveitarfélaga og ríkis. Því væri eðlilegra að efla stjórnendur og veita stuðning og fræðslu vegna slíkra mála.
Þá benti Hrannar á að í Danmörku má finna sambærilegt áminningarkerfi, áður en til uppsagnar getur komið, sem nær yfir allan vinnumarkaðinn og eðlilegt sé að horfa til Danmerkur þegar um ræðir reglur um opinbert starfsfólk eða starfsfólk á hinum almenna vinnumarkaði.
Sjá nánar frétt BSRB
