Fara í efni
29.09.2021 Fréttir

Sonja Ýr endurkjörin formaður á 46. þingi BSRB

Deildu

Sonja Ýr Þorbergsdóttir var í dag endurkjörin formaður BSRB til næstu þriggja ára á 46. þingi BSRB með 97,22 prósent greiddra atkvæða. Þingið, sem nú er nýlokið, var rafrænt vegna sóttvarnaraðgerða þegar það var boðað og var allri málefnavinnu sem til stóð að fara í á þinginu frestað þar til á framhaldsþingi.

Sonja var ein í framboði til formanns, en hún var fyrst kjörin formaður bandalagsins á 45. þingi BSRB í október 2018. Á þinginu var Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, kjörinn í embætti 1. varaformanns BSRB. Þá var Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar stéttarfélags í almannaþjónustu, endurkjörin í embætti 2. varaformanns BSRB.

„Nú þegar við virðumst loksins farin að sjá fyrir endann á faraldrinum þurfum við að horfa til framtíðar. Við höfum einstakt tækifæri til að móta það samfélag sem við viljum búa í eftir kófið og við eigum að grípa það tækifæri. Við vitum ekki enn hvaða ríkisstjórn mun taka við eftir kosningarnar en sjáum öll að það eru stór verkefni sem bíða,“ sagði Sonja þegar hún ávarpaði þingið.

https://www.bsrb.is/is/frettir/frettasafn/sonja-yr-endurkjorin-formadur-a-46-thingi-bsrb