Í gær var haldið námskeið á vegum SfK í gerð lækningasmyrsla. Elsa Ósk Alfreðsdóttir verkefnastjóri SfK hélt námskeiðið en hún er þjóðfræðingur að mennt og hefur meðal annars lagt stund á grasalækningar. Hún stofnaði Venus Heilsu- og jurtasetur og hefur unnið með líkamsmeðferðir, lækningajurtir og stjörnukort.
Í upphafi var farið yfir sögulega þróun grasalækninga hér á landi en efnið er byggt á meistararitgerð Elsu sem ber heitið „Fólk heldur oft að við séum bara hippar úti á túni, en þetta er blóð sviti og tár“ þar sem hún tók saman sögu grasalækninga úr helstu heimildum frá landnámi og rannsakaði grasalækningar í íslenskum samtíma. Fjallað var um grasalæknafjölskyldu sem numið hefur þekkingu sína af eldri kynslóðum langt aftur í ættir, sagt frá afrekum þeirra, ævintýralegum sögnum og þróun á aðferðafræði þeirra. Ræddar voru hugmyndir um sjálfsmynd, örlög, blóðtengsl, huldufólk og menningararf í því samhengi. Einnig var rætt hvernig breytingar hafa áhrif á hefðir og þekkingu þegar slíkt hefur verið innleitt undir hatt háskóla eða vísinda.
Nokkrar af helstu lækningajurtunum voru kynntar, farið var yfir tínsluaðferðir, hvernig á að þurrka og geyma jurtir og ótal leiðir sem hægt er að nýta þær til varðveislu og í sitt eigið heima-apótek. Endað var á verklegri kennslu í smyrslagerð þar sem félagsfólk fékk bæði að sjá lokastig smyrslagerðar og fylla á krukkur til að taka með sér heim ásamt fleiri uppskriftum af lækningasmyrslum.
Mikil ánægja var meðan þátttakenda og strax var lýst yfir tilhlökkun yfir komandi námskeiðum Starfsmannafélags Kópavogs.









