Skerpt hefur verið á áherslum BSRB í nýrri stefnu bandalagsins sem unnin var á 45. þingi bandalagsins, en stefnan hefur nú verið gerð opinber. Allt starf BSRB grundvallast á þeirri stefnu sem mótuð er á þingum bandalagsins. Stefnan er í alls 14 köflum þar sem fjallað er um almannaþjónustuna, atvinnumál og efnahags- og skattamál. Þar er einnig fjallað um heilbrigðismál, húsnæðismál, jafnrétti, menntamál og starfsumhverfi starfsfólks í almannaþjónustu. Hægt er að lesa einstaka kafla í stefnunni hér. Ný stefna BSRB er viðamikil en skerpt er á helstu þáttum hennar með ályktunum þingsins, sem einnig eru komnar inn á vefinn. Í kjölfar þingsins hefur verið unnið að því að forgangsraða þeim fjölmörgu mikilvægu málum sem fjallað er um í stefnu bandalagins. Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir að þar standi nokkur mál upp úr. „Það er skýr krafa um það að launafólk geti lifað af dagvinnulaununum, en ekki síður á að stjórnvöld standi við skýr loforð um jöfnun launa á milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins,“ segir Sonja. „Grundvallaratriði er að launafólk geti lifað af dagvinnulaunum því augljóst er að fyrr verður ekki sátt um kjaramál í þessu landi. Draga þarf úr yfirvinnu, enda leiðir minna vinnuálag til þess að afköst starfsfólks aukist hlutfallslega,“ segir meðal annars í nýrri stefnu BSRB. „BSRB telur grundvallaratriði að launamunur milli hins opinbera og hins almenna vinnumarkaðar verði jafnaður samanber samkomulag um lífeyrismál frá 19. september 2016. Launakannanir hafa sýnt að launamunur á milli markaða sé um það bil 17 prósent. Þá verður áfram að vinna að hækkun lægstu launa,“ segir þar jafnframt.
28.11.2018