01.03.2018
Samkomulag um útfærslu annars áfanga launaþróunartryggingar.

Samkomulag um framhald launaþróunartryggingar opinberra starfsmanna sem eru í BSRB eða Alþýðusambandi Íslands var undirritað á skrifstofu BSRB í hádeginu í dag. Laun félaga í BSRB sem starfa hjá sveitarfélögum munu hækka um 1,4 prósent frá 1. janúar 2018 vegna samkomulagsins. Laun félaga í ASÍ sem starfa hjá sveitarfélögum munu einnig hækka um 1,4 prósent og laun félaga í ASÍ sem starfa hjá ríkinu hækka um 0,5 prósent frá sama tíma. Þessar hækkanir koma til viðbótar við samningsbundnar hækkanir. Samkomulagið um útfærslu launaþróunartryggingar er gert í kjölfar rammasamkomulags aðila vinnumarkaðarins sem gert var í október 2015. Aðild að samkomulaginu eiga íslenska ríkið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, ASÍ, BSRB og Samtök atvinnulífsins. Í rammasamkomulaginu er kveðið á um að starfsmönnum hjá ríki og sveitarfélögum verði bætt launaskrið á almennum vinnumarkaði verði það meira en hjá hinu opinbera. Með því er ætlunin að tryggja að laun opinberra starfsmanna sitji ekki eftir í almennri launaþróun.