Ný rannsókn Vörðu, Rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins, sýnir í skýrslu sem gefin var út nú í október 2025 að foreldrar leikskólabarna í Kópavogi eru mjög óánægðir með svokallað Kópavogsmódel sem nær yfir þær breytingar sem gerðar voru á leikskólakerfi Kópavogs haustið 2023. Breytingin er á þann veg að nú er sex tíma vistun gjaldfrjáls en umframtími í vistun kostar meira en áður.
Viðmælendur rannsóknarinnar nefndu margir að breytingar hafi fyrst og fremst verið gerðar með fjárhagslegan sparnað Kópavogsbæjar í huga en ekki út frá velferð barna, starfsfólks og foreldra.
Kerfið bitnar einna helst á þeim foreldrum sem eru í verri stöðu félagslega og efnahagslega. Út frá þessu módeli er gengið út frá að fólk hafi sveigjanleika í vinnu, getu til að vinna styttri daga eða hafi öflugt bakland. Slíkt er alls ekki raunveruleiki margra foreldra.
Foreldrar lýstu auknu álagi á mæður þar sem breytingarnar lentu mest á þeim að bregðast við þar sem þær bæru almennt meiri ábyrgð á því sem snýr að börnunum en einnig álagi á ömmur sem hafa þurft að hlaupa undir bagga. Mikið álag hafi lent á barnafjölskyldum að samræma vinnu og fjölskyldulíf sem og aukna tímapressu eftir breytingarnar. Jafnvel hafa foreldrar sem þó njóta sveigjanleika í vinnu lýst auknu álagi eftir að breytingarnar voru innleiddar.
