Fara í efni
06.03.2025 Fréttir

Nýr dómur Félagsdóms um rétt til launa í veikindum

Deildu

Þann 5. mars sl. féll dómur í Félagsdómi í máli nr. 13/2024 þar sem túlkun BSRB og annarra heildarsamtaka launafólks um rétt til launa í veikindum vegna fyrri þjónustualdurs hjá hinu opinbera, var staðfest.

Málið sneri að félagskonu Kjalar stéttarfélags en hún hafði starfað hjá hinu opinbera í meira en 12 ár og átti rétt til launa í 273 daga í veikindum. Eftir flutning á milli sveitarfélaga hóf hún störf hjá nýju sveitarfélagi, en veiktist þar fljótlega eftir starfsbyrjun. Sveitafélagið taldi hana einungis eiga 14 daga rétt til launa en ekki 273 daga, þar sem hún hefði ekki unnið samfellt í 12 mánuði hjá opinberum launagreiðanda og skemur en þrjá mánuði hjá viðkomandi sveitafélagi.

Þessi afstaða sveitarfélagsins er þekkt og opinberir launagreiðendur hafa haldið þessu fram áður en BSRB og fleiri heildarsamtök hafa mótmælt þessari afstöðu harðlega.

Félagsdómur staðfesti þá túlkun sem BSRB og önnur heildarsamtök launafólks hafa haldið fram um að opinberir starfsmenn eigi rétt á að fyrri þjónustualdur þeirra sé metinn ef þeir hafa einhvern tímann starfað samfellt í meira en 12 mánuði hjá ríki, sveitarfélagi eða sjálfseignarstofnunum sem kostaðar eru af almannafé. Þessir 12 mánuðir þurfa því ekki að vera í beinum tengslum við ráðningu fólks þegar þar verður óvinnufært vegna veikinda enda kemur það hvergi fram í kjarasamningi.

Niðurstaða Félagsdóms var því að félagskona Kjalar ætti rétt til 273 daga í launuðum veikindum. Við tökum undir með BSRB og fögnum þessari niðurstöðu.

Sjá frétt BSRB hér:

Sjá dóminn í heild sinni hér: