Dagana 24.-26. ágúst 2025 var NTR ráðstefna haldin þar sem fulltrúar stéttarfélaga opinberra starfsmanna á Norðurlöndunum komu saman og fóru yfir helstu þemun í ár en sjónum var beint að framtíðarsýn á vinnumarkaði, áhrif gervigreindar á störf og starfsumhverfi, áherslur Z kynslóðarinnar en það er sú kynslóð sem er yngst á vinnumarkaði en einnig var lögð áhersla á þróun og mikilvægi símenntunar.
Á ráðstefnunni voru 35 fulltrúar BSRB en auk Starfsmannafélags Kópavogs voru þar fulltrúar Kjalar, FOSS, Starfsmannafélags Hafnarfjarðar, Starfsmannafélags Mosfellsbæjar, Starfsmannafélags Vestmannaeyja og Sameykis.
Næsta ráðstefna verður haldin í Þórshöfn í Færeyjum í september 2027.
Ákveðið var að halda áfram að vinna með ofangreind þemu og dýpka þekkingu okkar á þeim - og halda ótrauð áfram með samtalið um hvernig við sem stéttarfélög verðum að tryggja jöfn tækifæri félagsfólks til símenntunar, hvort heldur sem er fyrir persónulegan vöxt, aukna hæfni í starfi eða til að fylgja hraðri þróun tæknibreytinga með innreið gervigreindar.
Mikilvægi þess að ná til Z kynslóðarinnar, mæta þeirra hugmyndafræði og þörfum og virkja ungt fólk til þátttöku og meðvitundar um starf stéttarfélaga, var ítrekað. Stéttarfélög gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki í dag og samstaða þeirra á milli var sterk eins og raun bar vitni á ráðstefnunni.
Það er ekki síður mikilvægt að stéttarfélög þróist í takt við breytta tíma, beri ábyrgð á að mæta þörfum nýrra kynslóða og sjá til þess að innleiða símenntun í eigin starfi, félagsfólki til heilla.

