SfK fór með níu fulltrúa á Landsfund bæjarstarfsmanna sem haldinn var í Hofi á Akureyri dagana 19.-21. nóvember 2025 og í ár buðu Kjölur – stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu heim.
Fundurinn var settur af Örnu Jakobínu Björnsdóttur, formanni Kjalar. Anna Guðný Guðmundsdóttir framkvæmdarstjóri Kjalar sá um fundarstjórn.
Því næst hélt hvert bæjarstarfsmannafélag kynningu á starfsemi síns félags en þau voru ellefu talsins. Marta Ólöf Jónsdóttir formaður SfK kynnti félagið og starfsemi þess. Farið var yfir verkefni starfsársins en þar má helst nefna öflugt trúnaðarmannastarf, fræðslu og viðburði sem hafa mælst vel fyrir sem og aukinn sýnileika og þjónustu við félagsfólk. Virkilega áhugavert að fá innsýn inn í starfsemi annarra félaga.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir kynnti hlutverk BSRB og þjónustuviðmið en fór einnig yfir sögulega þróun samtakanna frá stofnun þeirra árið 1942.
Á öðrum degi Landsfundar voru margvísleg málefni rædd.
Eftir inngang frá Sonju Ýr Þorbergsdóttur formanns BSRB um þjónustuviðmið BSRB, sem samþykktur var 2013, tóku umræður á borðum þar sem fulltrúar bæjarstarfsmannafélaganna skráðu niður helstu atriði um þemun sem um ræddi. Til umræðu voru fyrrnefnd þjónustuviðmið, hvort þau þyrfti að uppfæra eða aðlaga; um hagsmunagæslu og þjónustu við félagsmenn, hvort og hvernig hægt væri að bæta hana; um skrifstofuhald bæjarstarfsmannafélaga og stafrænar lausnir og samstarf félaga og BSRB.
Þegar hádegismat var lokið var haldið af stað í nýjar umræður á borðum en þar var farið yfir umræður um stöðu og stefnu í kjaramálum. Sá lærdómur sem mátti draga af síðustu samningum var dreginn fram, velt var upp sameiginlegri stefnu og forgangsröðun í gerð kjarasamninga. Samstarf og verkaskipting var rædd og leiðir til að efla samningarnefndir skráð niður. Skipulag fyrir næstu kjaraviðræður og tímalína verkefna áður en til þeirra kemur, var mikið rædd. Síðasta samninganefnd var kölluð upp að pontu og beðin um að deila með hópnum hvernig ferlið var, hvar lágu styrkleikarnir og hverju má skerpa á fyrir næstu lotu.
Heimspekingurinn Þórgnýr Dýrfjörð flutti erindið „Hin dyggðum prýdda manneskja – um gæði lífsins og hamingjuna sjálfa“. Hann dró fram mismunandi kima siðfræðinnar; hver og hvað ákvarðar rétt og rangt en einnig hvernig dyggðir binda saman gildi og hegðun. Hægt er að þjálfa dyggðir rétt eins og aðra hæfni, til dæmis hugrekki – við getum þjálfað okkur í hugrekki.
Guðrún Ragnarsdóttir og Anna Guðný Guðmundsdóttir voru fundarstjórar.
Endað var á hátíðardagskrá á skrifstofu Kjalar og kvöldverði.
Á þriðja og lokadegi Landsfundar 2025 var byrjað á því að syngja undir gítarspili. Arna Jakobína formaður Kjalar tók því næst við að kynna þá fræðsluaðila sem sem stéttarfélögin niðurgreiða námskeið hjá. Með því að niðurgreiða námskeið og fræðslu tryggja stéttarfélög að félagsfólk hafi jafnan aðgang að þekkingu, betri starfsþróun og auknu öryggi á vinnumarkaði.
Hrund Hlöðversdóttir, framkvæmdarstjóri Mannauðssjóðsins Heklu, kynnti starfsemi sjóðsins. Sveitarfélög, stofnanir og vinnuveitendur sem greiða í sjóðinn geta sótt í hann fyrir sitt starfsfólk en mikilvægt er að skoða úthlutunarreglur áður en sótt er um.
Mannauðssetrið heldur hins vegar utan um verkefni, mótar stefnur og vinnur að fræðslutækifærum. Eitt af verkefnum Mannauðsseturs er könnunin um Sveitarfélag ársins en í ár er fjórða árið sem hún er gerð.
SfK þakkar öllum fulltrúum kærlega fyrir fræðandi samveru og sérstakar þakkir til starfsmanna Kjalar fyrir glæsilegan Landsfund!









