Guðfinna Harðardóttir framkvæmdarstjóri Starfsmenntar hélt erindi um ævilangan lærdóm og færniþróun á vinnumarkaði. Hún lagði áherslu á að menntun, störf og reynsla séu nátengd og fléttist saman út allt lífið. Nám fer fram á öllum sviðum lífsins hvort heldur sé í skóla, á vinnustað eða í hversdeginum, bæði meðvitað og ómeðvitað.
Guðfinna greindi á milli formlegs náms (skólar, námskeið, þjálfun), ekki-formlegs náms (starfsþjálfun, mentorakerfi) og óformlegs náms (dagleg samskipti, tengslanet, reynsla). Hún lagði áherslu á að í námi tileinki einstaklingar sér vitneskju, færni og viðhorf sem saman stuðla að aukinni frammistöðu og vellíðan í starfi.
Hún benti á að hvatning og umhverfi skipti sköpum en án hvata og stuðningsumhverfis nýtist færni einstaklinga ekki. Það að leggja sitt af mörkum fyrir samfélagið virðist vera hvetjandi drifkraftur sem og innri hvöt vegna áhuga eða löngunar til að verða nytsamlegur skiptir meira máli heldur en ytri hvatar eins og umbun fyrir vinnuna þína.
Guðfinna fjallaði einnig um helstu áskoranir sem samfélagið stendur frammi fyrir. Til dæmis örar tæknibreytingar og innreið gervigreindar sem gerir nýjar kröfur um hæfni og aðlögunarhæfni. Samfélagslegar breytingar þar sem fleira fólk vinnur lengur á vinnu markaði og aukin þörf fyrir innflytjendur í hin ýmsu störf. Einnig nefndi hún grunnfærni en samkvæmt OECD þurfa einstaklingar lágmarksfærni í lestri, stærðfræði og tæknikunnáttu til þess að taka virkan þátt í atvinnulífi.
Stærsta hindrunin fyrir þátttöku í fullorðinsfræðslu og símenntun er skortur á tíma vegna vinnu og fjölskyldu. Þeir sem síst taka þátt eru einstaklingar með lága menntun, lágar tekjur, innflytjendur og eldra fólk.
Guðfinna lagði áherslu á mikilvægt hlutverk stéttarfélaga í að efla færni félagsfólks:
- skapa rými og stuðning fyrir símenntun
- huga sérstaklega að þeim sem skortir grunnfærni
- kveikja áhuga á námi hjá þeim sem hafa ekki fagmenntun
- byggja áfram á sterkum norrænum kerfum sem einkennast af trausti og samtali
„Við þurfum að taka ábyrgð á eigin færni og lærdómi,“ sagði Guðfinna. „Nám tekur tíma, en það er forsenda þess að við séum undirbúin fyrir áskoranir framtíðarinnar.“

