Þorbjörg Þorvaldsdóttir verkefnastýra Samtakanna ´78 hélt fræðslu fyrir starfsfólk stéttarfélaga um fordómafulla umræðu og hvernig hægt sé að bregðast við henni. Aukin skautun (þegar fólk flykkist í andstæða hópa), aukning á hatursglæpum og meiri heift í garð minnihlutahópa má sjá í opinberri umræðu.
Hatursumræða er hættuleg lýðræðissamfélögum og þrífst ekki nema tvennt komi til: Móttækilegir áheyrendur og eldfim skilaboð. Þeir áheyrendur sem eru móttækilegir eru gjarnan nú þegar hræddir við viðkomandi hóp, búa sjálfir yfir langvarandi áfallastreitu eða skortir tengsl við aðra hópa samfélagsins.
Hættuleg orðræða getur falið í sér afmennsku (að tala um fólk sem skordýr, plágu, ógeðfellda hluti), sannfæring um að hópur fólks sé ógn við öryggi kvenna og barna eða öryggi samfélagsins. Afmennskun sannfærir að sumt fólk sé minna virði og því sé réttlætanlegt sé að beita það ofbeldi.
Það er mikilvægt að leyfa ekki hatursfullri orðræðu að standa án viðnáms og hægt er að bregðast við henni með ýmsum hætti, eftir því sem við treystum okkur til að gera. Til dæmis er mikilvægt að minnka skaða af skaðlegri orðræðu og koma í veg fyrir stigmögnun. Mikilvægt er að koma fram við alla af lágmarks kurteisi. Við viljum að það heyrist í fólki sem er styðjandi við minnihlutahópa svo gagnræðan heyrist.
Ef við heyrum hatursfulla umræðu eða hættulega orðræðu um fólk eða hópa fólks getum við notað ýmsar leiðir til að kæla umræðuna:
- Hægt er að koma öðru sjónarmiði á framfæri - "Ég er alveg ósammála þér því að...", "ég get reyndar ekki tekið undir þetta..." eða "ég reyndar fagna því að..."
- Hægt er að kalla eftir stillingu - "Mér finnst að við eigum að sýna fólki lágmarks virðingu", mér finnst ekki í lagi að tala svona um fólk.
- Hægt er að spyrja spurninga - "Hverju hefuru áhyggjur af?", "Hefur þú persónulega reynslu af þessu?" eða "hefur þetta áhrif á þitt líf?"
- Hægt er að leiðrétta - "Þetta er reyndar ekki rétt hjá þér. Staðreyndin er..", miðað við það sem ég hef heyrt þá..."
Við höfum öll áhrif í okkar áhrifahring. Stöndum öll saman vörð um lýðræði og mannréttindi.
Sjá nánar um gagnræðu á síðu Samtakanna ´78
