Fara í efni
12.09.2025 Fréttir

Gulur september – vitundarvakning um sjálfsvígshættu

Deildu

Í september er alþjóðleg vitundarvakning um sjálfsvíg og sjálfsvígshættu undir formerkjunum; Gulur september. Þessi árstími er valinn vegna þess að Alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga er 10. september og Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn er 10. október.

Markmiðið er að brjóta niður þögnina, vekja athygli á mikilvægi forvarna og minna okkur á að það er alltaf von og hjálp að fá.

Sjálfsvíg er meðal algengustu dánarorsaka á heimsvísu, en með aukinni fræðslu, opnari umræðu og stuðningi getum við öll lagt okkar af mörkum til að forðast slíkan harmleik. Það skiptir máli að hlusta, veita rými fyrir tilfinningar og hvetja fólk til að leita sér aðstoðar.

Guli liturinn er litur sjálfsvígsforvarna. Semikomman er víða notað til að sýna samstöðu með geðheilbrigði og sjálfsvígsforvörnum. Það vísar til framhalds; seiglu og vonar.– áminning um að lífið getur snúist til betri vegar.

Með því að taka þátt í vitundarvakningunni sýnum við samhug, styðjum við þá sem glíma við erfiðar hugsanir og heiðrum minningu þeirra sem hafa látist af völdum sjálfsvígs.

Þeim sem glíma við sjálfsvígshugsanir er bent á;
Upplýsingasími heilsugæslunnar sími: 1700
Netspjall heilsuvera.is
Hjálparsími Rauða krossins sími: 1717
Netspjallið 1717.is
Píeta sími: 552-2218
Neyðarlínan sími: 112

Þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi er bent á stuðning í Sorgarmiðstöð sími: 551-4141, Upplýsingasíma heilsugæslunnar: 1700, netspjallið heilsuvera.is, og á Píeta símann: 552-2218.
Bergið Headspace er stuðnings- og ráðgjafasetur fyrir ungt fólk upp að 25 ára aldri.

Birta landssamtök er vettvangur foreldra/forráðamanna barna og ungmenna sem látist hafa skyndilega.

Ljónshjarta eru samtök til stuðnings fólki á aldrinum 20-50 ára sem misst hefur maka og börnum sem misst hafa foreldri.

Örninn heldur úti starfi fyrir börn og unglinga á aldrinum 9-17 ára sem hafa misst náinn ástvin.

Á vefsíðunni sjalfsvig.is má einnig finna gagnlegar ábendingar um stuðning og lesefni.