Fara í efni
26.08.2025 Fréttir

Gott atvinnulíf á tímum gervigreindar - NTR ráðstefnan

Deildu

Christiane Vejlø, sérfræðingur í stafrænni þróunar- og framtíðargreiningu flutti frábæran fyrirlestur og fór yfir þau stafrænu teikn á lofti sem gætu gefið vísbendingar um hvernig framtíðar vinnumarkaður gæti litið út og hvernig gervigreind hefði áhrif á störf, félagslegt umhverfi og kröfur í símenntun.

Vejlø lagði áherslu á að gervigreind sé komin til að vera og að hún muni bæði fella niður ákveðin störf og skapa ný. Mikilvægast sé að viðhalda aðlögunarhæfni og skilgreina á ný hvað felist í góðu atvinnulífi.

Í erindinu kom fram að gervigreindin er ekki aðeins verkfæri sem framkvæmir fyrirmæli líkt og þau forrit sem við höfum notað hingað til eins og Word, Excel og þess háttar. Þess í stað er gervigreind líkt og virkur „aðstoðarmaður“ sem getur þróað hugmyndir, skilað af sér greiningum og skýrslum og jafnvel haft áhrif á ákvarðanatöku með ráðgefandi hætti.

Hún minnti á að gervigreind geti aldrei orðið manneskja, því það sem skilur okkur frá henni er mennskan sjálf: tilfinningar, samvera og líkamleg snerting. Mennska og lifuð reynsla er eitthvað sem gervigreind getur aldrei innifalið. Þess vegna verði störf sem byggja á mannlegum tengslum alltaf mikilvæg í framtíðinni.

Vejlø benti einnig á að við verðum að vera á varðbergi gagnvart hættum gervigreindar, svo sem falsfréttum, djúpfölsunum og mögulegum misnotkunarmöguleikum. Hún sagði ábyrgð skipta þar lykilmáli. Mikilvægt er að gervigreind styðji við starf mannfólks, einfaldi það, sé tímasparandi og aðstoði við greiningar og ný sjónarhorn.

„Við stöndum á krossgötum,“ sagði Vejlø. „Nú þarf að taka mikilvægar ákvarðanir um hvernig við mótum framtíð vinnu, samfélagsins og mennskunnar sjálfrar í samvinnu við gervigreind.“