Verður haldinn fimmtudaginn 20. mars kl. 17:00-19:00
í sal safnaðarheimilis Kársnessóknar að Hábraut 1a Kópavogi
Dagskrá:
1. Fundur settur og starfsmenn fundarins skipaðir
2. Skýrsla stjórnar
3. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til úrskurðar
4. Lagabreytingar
5. Ákveðið árgjald félagsmanna
6. Ákveðið árgjald í verkfallssjóð
7. Kosning í stjórn og nefndir
8. Önnur mál
Að loknum fundi verður boðið uppá léttar veitingar og skemmtikrafturinn Jóhann Alfreð mun skemmta okkur með uppistandi.
Happdrætti!
Tveir vinningar- Gjafakort hjá Icelandair
Starfsmannafélag Kópavogs tilkynnir hér með að stjórnarkjör til stjórnar félagsins fer fram á aðalfundi félagsins þann 20. mars 2025.
Samkvæmt lögum félagsins skal stjórn félagsins skipuð fimm félagsmönnum auk tveggja til vara. Stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára í senn á aðalfundi.
Formann skal kjósa sérstaklega. Fjórir meðstjórnendur skulu kosnir til tveggja ára þannig að árlega gangi tveir úr stjórn á víxl. Tveir varamenn skulu kosnir til tveggja ára þannig að árlega gangi annar úr stjórn á víxl.
Stjórnin skiptir með sér verkum og kýs varaformann og ritara úr sínum hópi.
Allar tillögur í stjórnir og nefndir Starfsmannafélags Kópavogs skulu vera skriflegar og berast í tölvupósti til SfK – sfk@stkop.is eigi síðar en 2 vikum fyrir aðalfund, eða til og með 5. mars 2025. Tilnefningum skulu fylgja nafn viðkomandi, kennitala, starfsheiti, heimilisfang og heiti vinnustaðar þeirra sem tillagan er gerð um.
Tilnefningar sem berast eftir 5. mars teljast ógildar.
Ef frambjóðendur eru jafn margir stjórnarsætum, teljast þeir sjálfkjörnir.
Þeir einstaklingar sem þegar hafa boðið sig fram til starfa í stjórn og nefndum félagsins eru eftirfarandi:
Framboðslistar
Framboð í stjórn:
Íris Dögg Sverrisdóttir
Hef starfað á Bókasafni Kópavogs síðan febrúar 2010 í stöðu bókavarðar.
Var kosin trúnaðarmaður bókavarða í október 2021 og sinni því enn. Ég tek trúnaðarmannaskildu mína mjög alvarlega og viðheld virku upplýsingaflæði til míns fólks í gegnum lokaðan Facebook hóp og lokaða rás á Teams. Einnig sé ég til þess að enginn nýr starfmaður fari í gegnum starfsþjálfun á safninu án þess að setjast niður með mér þar sem ég fræði þau um stéttarfélagið okkar, réttindi þeirra og kynni fyrir þeim það helsta í gildandi kjarasamningum hverju sinni. Sérstaklega þegar um ungt fólk er að ræða sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði, jafnvel þó þau verði bara hjá okkur t.d. í eitt sumar, því þau taka stéttarfélagsvitundina með sér í næsta starf og það skiptir öllu.
Ég tel það gríðarlega mikilvægt að samstarfsstarfsfólk mitt sé vel upplýst um réttindi sín og geti alltaf leitað til mín.Stofnaði starfsmannafélag Menningarhúsanna í Kópavogs ásamt ásamt fleirum í janúar 2018 og er formaður félagsins. Hef setið í orlofsnefnd SfK síðan í maí 2024 og gegni stöðu ritara. Var ein af fulltrúum SfK á þingi BSRB í nóvember 2024. Er í óformlegri skemmtinefnd SfK síðan í janúar 2025.
Starfsstöð Bókasafn Kópavogs
Erla Jóna Gísladóttir
Ég starfa í leikskólanum Fögrubrekku og hef starfað þar síðan 2007, fyrst sem leiðbeinandi, svo var ég stuðningur/stuðningsfulltrúi í nokkur ár og eftir að ég útskrifaðist sem leikskólaliði árið 2019 hef ég starfað sem hópstjóri.
Ég kom fyrst inn sem afleysing fyrir fyrrum trúnaðarmanninn okkar hér í Fögrubrekku árið 2015/2016 og hef gengt því starfi með sóma síðan þá. Hef sótt nokkur námskeið BSRB tengd trúnaðarmanninum hjá Félagsmálaskóla alþýðu sem hafa nýst mér vel í starfi. Ég hef sinnt skyldu minni sem trúnaðarmaður vel, hef t.d. reynt mitt allra besta að taka vel á móti nýjum starfsmönnum og upplýst þá um félagið okkar og fyrir hvað það stendur. Ég er með lokaðan spjallhóp fyrir okkur þar sem ég kem öllum skilaboðum áleiðis og þar sem við getum rætt okkar á milli og leitað upplýsingar hjá hvort öðru.
Ég er formaður starfsmannafélags leikskólans Fögrubrekku og hef verið það síðan félagið var stofnað árið 2018. Hef setið nokkrum sinnum í skemmtinefnd leikskólans og sit þar nú. Einnig er ég fulltrúi í skemmtinefnd SFK sem sett var á laggirnar í janúar 2025. Ástæða þess að ég býð mig fram í stjórn starfsmannafélags Kópavogs er að ég læt mig félagsmálin varða þar sem þau snerta okkur öll, ég var t.d. mjög virk í síðustu kjarabaráttu okkar sem endaði í verkfalli. Var drífandi fyrir fólkið á minni starfstöð sem varð til þess að dag eftir dag var full mæting frá okkur í verkfallsvörslu og annað tengt baráttunni. Einnig finnst mér vanta að leikskólar Kópavogs eigi sinn fulltrúa í stjórn félagsins.
Starfsstöð Leikskólinn Fagrabrekka
Málfríður Anna Gunnlaugsdóttir
Ég hóf störf hjá Kópavogsbæ 2014, fyrst sem staðgengill þjónustustjóra en starfa núna sem þjónustustjóri í þjónustuveri Kópavogs og hef gegnt þeirri stöðu frá haustinu 2023.
Árið 2018 var ég kosin í stjórn Starfsmannafélags Kópavogs sem aðalmaður og gegni stöðu gjaldkera félagsins. Félagsmál hafa lengi verið mér hugleikin og það hefur verið mér mikil ánægja að fá það mikla hlutverk að vera gjaldkeri félagsins. Þá hefur einnig menntun, formleg sem óforleg, verið mér mikið baráttumál og því gaf ég kost á mér í fræðslunefnd BSRB. Hlutverk hennar er t.d. að fjalla um framtíðarvinnumarkaðurinn sem er í stöðugu breytingum ásamt fræðslu til trúnaðarmann sem eru tengiliður félagsins inn á starfsstöðum.
Þá hef ég einnig tekið þátt í mörgum viðburðum á vegna Starfsmannafélags Kópavogs eins og t.d. verði fulltrúi félagsins á þingum BSRB sem eru haldin á þriggja ára fresti. Tekið virkan þátt í landsfundi Bæjarstarfsmannafélagana sem er haldinn einu sinni á ári ásamt því að vera gildandi í kjarasamningsgerð.
Ég gef kost á mér til áframhaldandi setu í stjórn Starfsmannafélags Kópavogs. Í gengum starf mitt hjá Kópavogsbæ hef ég góða innsýn inn í þau mörgu verkefni sem eru á vegna sveitarfélagsins ásamt því að hafa byggt upp mikla reynslu sem gjaldkeri félagsins, sett mig inn í fræðslumál bæði á vegnum BSRB og Starfsmannafélags Kópavogs. Ég hef látið mig hag félagsfólks SfK á mörgum vettvöngnum varða, eins og í stjórn, ráðum, nefndum, almennri umræðu og annar staðar.
Framboð í orlofsnefnd:
Sigmundur Karl Kristjánsson
Ég hóf störf hjá Kópavogsbæ 2024 sem húsvörður í Salnum.
Fæddur og uppalinn í Þorlákshöfn. Giftur þriggja barna faðir og hef búið í Hafnafirði frá árinu 2005.
Frá árinu 2007-2017 var ég að vinna hjá IKEA, sinnti ég þar ýmsum störfum, m.a. sem lagerstjóri. Árin 2017- 2023 vann ég sem lagerstjóri í gólfefnaverslun Álfaborg.
Ég hef tekið að mér allskonar verktakavinnu m.a. flísalagnir, parketlegnir og allskonar smíðar inni sem úti.
Starfsstöð er í Salnum Kópavogi

