Fara í efni
14.04.2021 Fréttir

Aðalfundur SfK 2021

Deildu

Aðalfundur SfK 2021 verður haldinn miðvikudaginn 12. maí nk. kl. 17:15. Fundurinn verður rafrænn með sama fyrirkomulagi og í fyrra vegna óbreyttra samkomutakmarkana. Félagsmönnum verður sendur hlekkur í tölvupósti á fundinn.

Dagskrá

  1. Fundur settur og starfsmenn fundarins skipaðir
  2. Skýrsla stjórnar
  3. Endurskoðaðir reikningar lagði fram til úrskurðar
  4. Lagabreytingar lagðar fram til úrskurðar
  5. Ákveðið árgjald félagsmanna
  6. Kosning í stjórn og nefndir
  7. Önnur mál

Félagsmenn geta kynnt sér uppstillingu og framboðslista á heimasíðu félagsins. Félagsmenn eru hvattir til þess að bjóða sig fram og taka þátt í að efla félagið.

Stjórn Starfsmannafélags Kópavogs

Tillaga stjórnar um breytingu á lögum SfK. Samþykkt á stjórnarfundi 6. apríl sl.
Stjórn SfK gerir það að tillögu sinni að lögum félagsins verði breytt í samræmi við eftirfarandi:
▪ Kaflaheiti II kafla verði: Félagsaðild, réttindi og skyldur.
▪ Orðin „tvo hluta“ í 3. gr. falli á brott.
▪ 4. gr. breytist og hljóði svo:
Gangi félagi úr þjónustu stofnanna ríkis, sveitarfélaga, sjálfseignastofnana eða hætti störfum hjá atvinnurekanda sem falla undir ákvæði 3. greinar telst hann ekki lengur í félaginu.
Verði félagsmaður atvinnulaus skal hann eiga kost á að halda félagsaðild og þeim réttindum, sem er á færi félagsins að veita, á meðan hann er atvinnulaus og sannanlega ekki með aðild að öðru stéttarfélagi. Atvinnulausir greiði félagsgjald, en heimilt er að fella það niður.
▪ 6. gr. er ný grein og hljóði svo:
Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg tilkynning til stjórnar og öðlast hún gildi frá þeim tíma er hún berst félagsstjórn enda sé félagsmaður þá skuldlaus við félagið. Úrsögn öðlast þó ekki gildi eftir að ákvörðun um verkfall hefur verið tekin og meðan á verkfalli stendur, heldur frestast gildistaka hennar þar til verkfalli lýkur.
Halda skal aukaskrá yfir þá sem ekki eru félagsmenn, en greiða gjald til félagsins skv. 2. mgr. 7. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 og hafa tilkynnt það skriflega, að þeir óski ekki eftir að vera félagsmenn. Þeir sem á aukaskrá eru, njóta ekki atkvæðisréttar né annarra félagsréttinda svo sem aðildar að sjóðum félagsins, en taka laun eftir kjarasamningi félagsins og njóta þjónustu samkvæmt honum. Ef sá sem á aukaskrá er óskar eftir að gerast félagsmaður skal hann tilkynna það stjórn félagsins skriflega og telst þá félagsmaður frá því tilkynningin berst stjórninni.
▪ 6. gr. verði 7. gr.
▪ 7. gr. verði 8. gr.
▪ 8. gr. verði 9. gr.
▪ 9. gr. verði 10. gr. sem breytist og hljóði svo:
Stjórn félagsins skal skipuð fimm félagsmönnum og tveimur til vara. Stjórn skal kosin á aðalfundi samkvæmt eftirfarandi reglum:
Formaður skal kosinn til tveggja ára í senn.
Fjórir meðstjórnendur skulu kosnir til tveggja ára þannig að árlega gangi tveir úr stjórninni á víxl.
Tveir varamenn skulu kosnir til tveggja ára þannig að árlega gangi annar úr stjórn á víxl.
Kjósa skal tvo skoðunarmenn reikninga og varamenn þeirra.
Stjórnin skiptir með sér verkum og kýs sér varaformann, ritara og gjaldkera.
Formaður kallar saman stjórnarfundi og stjórnar þeim og varaformaður að honum forfölluðum.
Ritari skal halda fundargerðir fyrir alla fundi stjórnar.
Gjaldkeri varðveitir alla fjármuni félagsins og sérsjóða þess, nema annað sé ákveðið í skipulagsskrá þeirra. Allt handbært fé skal geymt í banka eða á annan hátt sem stjórn ákveður. Gjaldkeri greiðir alla reikninga og leggur fram endurskoðaða ársreikninga á aðalfundi.
Gjaldkera er heimilt að fela starfsmanni félagsins innheimtu gjalda og greiðslu reikninga. Skrá skal í fundargerð stjórnar sé heimildin nýtt og þann tíma sem henni er ætlað að standa.
▪ 10. gr. verði 11. gr.
▪ 12. gr. er ný grein og hljóði svo:
Stjórn félagsins skal sjá um að félagsmenn kjósi trúnaðarmenn á vinnustöðum samkvæmt 28. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 og 9. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938.
▪ 11. gr. verði 13. gr.
▪ 12. gr. verði 14. gr.
▪ 13. gr. verði 15. gr.
▪ 14. gr. verði 16. gr.
▪ 15. gr. verði 17. gr. sem breytist og hljóði svo:
Verkefni aðalfundar eru:
Skýrslur fráfarandi stjórnar, fastanefnda og annarra starfsmanna félagsins, eftir því sem þurfa þykir.
Lagðir fram endurskoðaðir reikningar sjóða félagsins fyrir undangengið ár og gerð grein fyrir þeim.
Tillögur um lagabreytingar. Slíkar tillögur skulu hafa borist stjórninni minnst einum mánuði fyrir aðalfund og skulu þær kynntar með fundarboði.
Ákvarðanir teknar um:
Árgjald félagsmanna.
Framlag í verkfallssjóð.
Ávöxtun sjóða félagsins.
Kosningar. Kjósa skal stjórn, skoðunarmenn reikninga, orlofsnefnd, fulltrúa á þing BSRB þau ár sem Bandalagsþing eru haldin, aðra trúnaðarmenn og fulltrúa félagsins.
▪ 16. gr. verði 18. gr.
▪ 19. gr. er ný grein og hljóði svo:
Reikningsár félagsins er almanaksárið. Til þess að standa straum af kostnaði við starfsemi félagsins greiða félagsmenn mánaðarlega félagsgjald til þess samkvæmt ákvörðun aðalfundar og skal miðað við hundraðshluta allra launa. Í félagsgjaldinu er innifalið árgjald til BSRB samkvæmt ákvörðun bandalagsins.
▪ 17. gr. verði 20. gr.
▪ 18. gr. verði 21. gr.
▪ 19. gr. verði 22. gr.
▪ 20. gr. verði 23. gr.
▪ 21. gr. verði 24. gr. sem breytist og hljóði svo:
Þessi lög SfK eru samþykkt með breytingum á aðalfundi félagsins þann 12. maí 2021 og taka þegar gildi. Með lögum þessum falla úr gildi eldri lög félagsins.
▪ Ákvæði til bráðabirgða í V kafla falli á brott.