Fara í efni
29.04.2025 Fréttir

1. maí 2025 - Konur taka yfir sviðið

Deildu

1. maí 1970 var sá dagur sem Rauðsokkurnar urðu til en þann dag hópuðust konur á rauðum sokkum saman á Hlemmi, gengu aftast í göngunni með stóra Venusarstyttu meðferðis og kröfðust kvenfrelsis.

Í tilefni Kvennaárs 2025 munu konur á rauðum sokkum leiða kröfugönguna, 55 árum eftir að Rauðsokkurnar ruddu sér til rúms. Við fögnum því sem barátta þeirra hefur komið áleiðis. Í dag hafa tekið höndum saman stéttarfélög, kvennahreyfingar, femínistar, fatlað og hinsegin fólk og í sameiningu beina sjónum að því að uppræta kynbundið ofbeldi og launamun.

Starfsmannafélag Kópavogs hvetur öll til að fjölmenna á kröfugöngur, viðburði og útifundi um allt land. Margt hefur áunnist með samstöðu og krafti verkalýðshreyfingarinnar og ber að standa vörð um þau réttindi sem þykja orðið sjálfsögð í dag, heiðra baráttur þeirra sem á undan hafa gengið og taka höndum saman um að skapa samfélag sem rúmar okkur öll í farsæld og jafnrétti.

Í Reykjavík verður safnast saman á Skólavörðuholti frá kl. 13:00 og gangan hefst 13:30. Gengið verður niður Skólavörðustíg, Bankastræti og Austurstræti að Ingólfstorgi. Klukkan 14:00 hefst útifundur á Ingólfstorgi þar sem Kolbrún dögg Kristjánsdóttir verður fundarstýra. Dagskráin verður táknmálstúlkuð og textatúlkuð á ensku.

Ræðu flytja Karla Esperanza Barralaga Ocón starfskona í umönnun, trúnaðarmaður og stjórnarmaður í Eflingu og Jóhanna Bárðardóttir rafveituvirki, rafvirki og trúnaðarmaður RSÍ. Rauðsokkur segja nokkur orð, Mammaðín og Una Torfa munu taka lagið og í lok fundarins verður samsöngur.

Göngum saman 1. maí í rauðum sokkum!

Starfsfólk Starfsmannafélags Kópavogs lætur sig ekki vanta í gönguna og hlakkar til að sjá ykkur flest!

🔴 Samstaða

🔴 Frelsi

🔴 Kraftur